Gamou

181

Fer út um leið og ég vakna kl. ellefu og leyfi sólinni að skola burt flugþreytu gærdagsins, meðan ég les reifarann Nemesis sem pabbi gaf mér í ferðagjöf.

Ceer vaknar loks, fer inn og tek þar kalda sturtu og strax byrjaður að sakna heita vatnsins heima.

Við Ceer förum út og heilsum upp á ca. 35 ára konu sem selur ávexti og ristaðar jarðhnetur með börnum sínum á gangstétt, móti húsinu okkar. Kveðjum og finnum okkur hraðbanka.

Á leiðinni segir hann þau með lykil að húsinu og ótrúlega heiðarleg, hafi auga með húsinu þegar við erum ekki heima og yngri systir konunar sjái um þrif á húsinu fyrir 50$ á mánuði.

Göngum á miðri söndugri götu og engin umferð. Ceer segir mér það sé Gamou og flestir farnir til pílagríms bæjarins Tivaouane að halda upp á afmæli Mohammeds. Það er vetur og ekki búið að rigna síðan í ágúst, svo öll borgin er rykug og skrælnuð.

Tek út 5000 cefa, kaupi svo croissant og snúða á Les Ambassaders þar á móti. Bakaríið er útatað rauðum hjörtum, blöðrum og gerviblómum í stíl til heiðurs st. Valintínusi og myndi sóma sér vel í Rauða hverfinu í Amsterdam.

Bjóðum svo Jean Charels upp á morgunmat og þeir ræða saman á frönsku, ég nota tímann og skrifa dagbók á meðan.

Eftir á, vill Ceer ganga um hverfið og heilsa fólkinu sínu og bíður mér með. Komum við í sjoppu á þarnæstu götu og fáum okkur caffé touba, rótsterkt og dísætt.

Bönkum svo upp á hús gamallar frænku hans þar á bak við. Enginn virðist vera heima en tvítug lítil stúlka kemur loks til dyra og segir hana ný flutta til Gíneu af ótta við að deyja fjarri ástvinum sínum. Sjálf er stelpan frá Gíneu en fær að búa frítt í húsinu meðan hún sækir sér menntunar í förðunarskóla þar rétt hjá.

Kveðjum og höldum áfram. Á leiðinni segir Ceer gömlu frænkuna hafa alið sig þar upp frá sex ára aldri en foreldrar hans flúðu frá Gíneu 1958, komu honum fyrir hjá henni og settust sjálf að í Sierra Leon.

Hittum stuttu seinna nokkra menn drekka te og passa ísskápa undir tré fyrir utan enn aðra sjoppuna, eins og þeir hefðu alltaf setið þarna og heilsuðumst við með handabandi.

Ceer sagði einn þeirra gera við bilaða ísskápa og seldi einstaka skáp meðan hann dólaði sér með félögunum  sem væru flestir yngri bræður æskuvina sinna, en þeir eru næstum allir fluttir vestur um haf.

Drekk blýsterkt te með þeim og hlusta á þá tala waloof þangað til ég þreytist og held áfram með reifarann. Og eftir að hafa tekið í höndina á öðrum hvorum manni sem gekk þarna niður götuna í tvo tíma, höldum við heim.

Tökum því rólega og eftir stutta stund býður J.C upp á rósa vín og þeir blaðra frönsku út í eitt.

246

Jean Charels hefur búið hér í átta mánuði, ætlaði að opna leigubílastöð í Dakar en fann ekki neinn sem hann gat treyst og eyddi því tímanum í að eltast við kvenfólk. Kemur með þá hugmynd að brjóta ekki bara niður veggina í húsinu heldur skera gat 6*2,5m að auki og ná þannig birtu inn í dimmt húsið og fá um leið betri tengingu við garðinn.

Ég er sammála, þetta er ekki bara sniðugt heldur nauðsyn. Bara að húsið þoli framkvæmdina hugsa ég og ráðlegg Ceer að athuga hvort það sé komin reynsla á þetta í samskonar húsum og ef ekki, ráðfæra sig við arkitekt. 

Hann segir það óþarfa og ætli að hefjast handa við niðurbrotið á mánudaginn eftir helgi. Jæja, þetta er hans hús og ég ekki enn búinn að ákveða hvort ég taki þátt í þessu.

Þeir halda áfram að tala um staðinn á frönsku svo ég geri teygjuæfingar í garðinum á meðan. Hugsa þar til ástarinnar minnar heima og vil heyra í henni hljóðið. En get það ekki strax, til þess er ég of ringlaður í hausnum og hálf dapur. Hún hefur nægar áhyggjur af mér samt.

J.C. kvaddi okkur um fimm og ók á hjólinu sínu til einnar ástkonunnar. Stuttu seinna tökum við Ceer leigubíl niðrí bæ og göngum þaðan á veitingastað við ströndina. Fínn staður, góð þjónusta og maturinn næstum jafn dýr og heima, nema meira úrval af fiski. 

Tek eftir að flestir gestanna eru sósuglaðir Frakkar, nokkrir kanar og heimamenn. Hafði haft áhyggjur af að ekki væri nóg af vestrænt þenkjandi fólki í Dakar sem ætti pening og létti stórum.

Pantaði karfa í bland við rækjur en Ceer fékk sér makrílinn og á meðan við biðum eftir matnum kveikti ég í sígarettu þó ég vissi ekki reglurnar og fékk öskubakka um hæl.

Eftir matinn göngum við uppí bæ og sé þar risastórt víravirki sem minnti á jólatré. Grínast við Ceer og hann segir það satt og sett upp fyrir kristna Senegala. Spyr hvort það sé ekki fallegra og ódýrara að fá alvöru grenitré frá Osló eins og við heima og það frítt. Hann segir stjórnkerfið í molum og forsetann sem býr rétt hjá, gamlann og fúinn, með fullt af fimmtugu já liði með sér.

Klukkan er rúmlega ellefu og fáir á ferli, göngum upp götu sem Ceer segir hafa verið þá fallegustu í Dakar og kölluð littla París vegna krúttlega frönsku húsanna sem hana prýddu.

Nú hafa þau flest vikið fyrir kassalaga og klámlega ljótum verslunarhúsum sem sjást varla fyrir kofaskriflum úr bárujárni og allskyns öðru rusli sem tekið hafa yfir (gang)stéttirnar.

Ceer segir forsetann kosinn af fáfróðu fólki sem byggt hefur þessi skýli undir götusöluna. Svo þegar hann ætlaði að stugga við kofunum fyrir tveim árum ,varð allt vitlaust og göturnar fylltust af ofbeldi og brennandi dekkjum.

Klikkti svo út að sami forseti hefði boðið sig fram í öllum forsetakostningum síðan lýðræði komst á. Þegar hann loks náði kjöri vildi hann ekki fara frá og kaupir sér ódýr atkvæði. Segist vera 91 árs sem Ceer segir lygi, hann er í raun 105 ára. Allt fólkið í kringum hann gegnumrotnir þjófar og því fari ekki króna í vegagerð og borgin ekki sú sama og algerlega komin í skítinn.

Tökum leigubíl heim, horfum þar á Prison Break og sofnum. 


Jaipur framhald af Agra

Vakknaði klukkutíma of seint. Carak keyrði mér í gegn um endalaust rusl og búpeninginn sem á því lifði, aðalega svín. Sagði þau borðuðu allt og stundum smá börn, frekar viðbjóðslegt.

18151_1221761865893_1284356370_30557322_5352287_n

Skoðaði Citi palace, stór bygging með fjölda bastarðabygginga utan á sér, sú nýjasta síðan 1910. Frá höllini lá stór varnar múr sem lá beggja vegna frá upp fjöllin þar til hann hvarf sjónum. Skoðaði þarna stærstu silfur ker í heimi (svo vitað sé), annað þeirra var notað undir flutning á heilögu vatni úr Ganga til London. (vatn úr Ganga á að vera allra meina bót og það má ekki filtera eða hreinsa á aðran hátt, þá missir það lækningar mátt sinn og kraft).

Carak ættlaði að sækja mig kl. tvö fyrir utan, ég var kominn út hálftíma fyrr, svo ég gekk út á eina aðalgötuna skoðaði markaðinn, keypti litastimpil sem myndaði ljón handa mömmu og stóran hengilás fyrir sjálfan mig. Gekk aftur til baka og reyndi að teikna sjálfan mig á hellurnar með rauðum stein. Strákur kemur til mín með bongótrommur og leikum okkur saman þangað til Carak sækir mig. 

18151_1221762945920_1284356370_30557349_3990061_n

Carak kom svo og tók mig til textilverksmiðju, alvöru svita sjoppa þar sem ungviðið var að stimpla alskyns litríkt munstur á mismunandi stranga, allt voru þetta náttúrulegir litir unnir úr steinum eða plöntum.

Keypti 3 skyrtur og lét sérsauma á mig jakka úr litríku silki, það litríku að eigandinn sagði það ekki ganga því það væri fyrir kvennfólk, tók á því ekkert mark. Jakki og skyrtur áttu að vera tilbúin eftir 3 tíma.

Keyrðum á venjulegan heima stað og borðaði þar sveppa karrí kássu með bestu lyst og fann þareftir banka og var sagt var að evran væri hrynjandi rusl svo ég skipti dollar í staðinn.

Fórum aftur í textílinn og auðvitað var jakkinn ekki tilbúinn svo að sent var eftir chai og whiskey fyrir mig. Drakk mig kenndan og skiptist á fimm aura bröndurum við búðarþjóna fulla af karlremmbu og kvennfyrirlitningu. Enn leið tíminn svo mér var boðið í lófalestur hjá gömlum manni þar rétt hjá og það frítt.

Maðurinn hafði stór vot blá augu, góðan þokka og hlýr. Spáði mér ævi til 90-96 ára sem ég á ekki bágt með að trúa enda örlítið kenndur. Sá fyrir að ég myndi gifta mig 33 ára frekar en 34 og að kona mín yrði einkar fögur og svipað þennkjandi og ég en væri ekki á Íslandi. Lýsti henni sem afskaplega fagurri og hávaxini konu, yrðum við hamingjusöm saman alla ævi.

Ég ætti eftir að vera sexý til 65 ára allavegana en myndi veikjast alvarlega 85 ára en lifa það af.Tvö börn skal mér hlotnast en sá ekki kynin. Sagði mig nýlega hættan rekstri en hæfi annan innan tíðar og yrði skuggalega ríkur. Varð frekjar foj á svipinn enda búinn að fá algert ógeð á peningum.

Sjálfur hafði ég hugsað mér að verða listabóhem í framtíðini, en það er víst ekki á allt kosið. Sagði forlaga línu mína góða en brotna á einum stað og hann ætti við sama vanda að stríða. Ég ætti að fá mér bláann safír á löngutöng hægri handar er línan vísar til og hviss bánng búmm, framtíðin björt. 

Eyddi góðum tíma að velja mér stein í hringinn sem ætti svo að liggja í mjólkurbaði á sunnudegi og skolaður upp úr vatni á mánudegi og enn betri framtíð. Keypti að sjálfsögðu hringinn og átti að fá hann sendan til Dehli daginn eftir.

Fór aftur í textilinn og hjálpaði eigandanum að ráða úr E-maili frá Nicole í Frakklandi sem hann að eiginn sögn fullnægði í sófanum þar sem ég hafði setið og drukkið whiskey rétt áður. Rakti svo velgengni í kvennamálum og verksmiðjunar til myndar af Lord Khrisna úr gulli sem hann keypti á morð fjár,baðað í svita barna og fólks sem vinnur fyrir hann fyrir skít og engan kanil.

18151_1221762825917_1284356370_30557346_5491808_n

Rafmagnið fór af verksmiðjunni, notaði kveikjaran í dauðans offorsi til að finna hina dýrmætu tösku er geymir alla mína nánustu framtíð á Indlandi áður en hún félli öðrum í skaut.

Jakkinn birtist á endanum en var allt of þröngur um brjóstið en málin á skytunum voru rétt. Við Carak vorum að falla á tíma og áttum að vera komnir til baka í Dehli, svo ég féllst og treysti á að jakkinn yrði sendur á mig til Dehlí.

Carak reyndi að svo að draga mig í en eina búðina sem ég hafnaði hvasst og lofaði honum svo að ég myndi ekki segja ferðaskrifstofuni Nexus að hann hefði ekki keyrt mig í allar búðirnar sem voru þeim vinveittar.

Það var helli demba á leiðini til Dehli, 5 tíma akstur. Horði á stóran rafmagnsblossa á bensínstöð og sofnaði. Vaknaði nokkru seinna og sá að klukkan var 11 og rigning, kveikti mér í sígarrettu með Carak og sofnaði aftur. Opnaði augun um eitt, við vorum  kyrstæðir, umferðarklemma vegna slys framar á veginum. Var orðið skítkalt og notaði kasmirurnar sem ég hafði keypt í Jaipur til að halda á mér hita.

Komum í forgugt Pahar Ganj rétt fyrir fjögur um nóttu og ráfaði út í alla hennar eymd og leitaði gistingar. Fann loks ólæstar dyr, kom að littlu skoffíni liggjandi á bedda í lobbíinu og vakti. Prúttaði um verðið við hann niður úr 450 í 400 rúpíur, fer aftur til Caraks og sendum í sms til Jaipur hvaða hótel ég gisti og herbergis nr.

Tipsaði Carak um 50 evrur og fékk númerið hans og hét því að minnast sem minnst á þessa ferð okkar við Nexus. Tróð mér svo inn á skítugt og þröngt hótelherbergi og sveif inn í svefn hinna réttlátu, moskito laus.


Ólöglegur í Senegal

Vaknaði við vekjaraklukkuna kl. 3:45 eftir rúmlega klukkutíma svefn, snúsa og lygni aftur augunum og snúsa aftur stuttu seinna.

Síminn hringir 4:50, það er Ceer og spyr hvort við séum ekki að koma, svefndrukkinn tek ég niður heimilisfangið. Ætlaði að vera löngu kominn á fætur og eiga smá tíma með ástinni minni áður en við leggðum af stað.

Drösluðum farangrinum út í bíl og komin á Boðagranda stuttu seinna. Eva hringir í Ceer lætur vita við séum komin, hann sér okkur ekki og eftir smá þref kemur í ljós að heimilisfangið er Aflagrandi.

Eftir tvö símtöl og allt of margar mínútur, erum við komin fyrir utan kjallara elliblokkar, Ceer birtist með 4 töskur og tvær þeirra fallega skreyttar blómum sem hann sagði "Colectiv items" sérsaumuð í Bandaríkjunum og kostuðu hálfa milljón. Hann sagðist ekkert hafa sofið fyrir búslóðarflutningum og ætlaði að sofa í tvo daga þegar við værum komnir niðreftir til Senegal.

Var að verða bensínlaus og neyddist til að stoppa á N1, brunaði svo Reykjarnesbrautina á 120 gegnum, krapa og slyddu. Vorum komin upp á flugvöll 5:50.

Skráðum okkur inn og kvaddi Evu mína í síðasta skipti í bili, utan við flugstöðina með trega og söknuði. Lítil kona á ógnarháum hælum hleypur fram hjá okkur með dalmatíu mynstraða tösku og Eva grínast með að þar fari forsetafrúin.

Fer inn með Ceer sem þurfti að pissa, hendi töskunum okkar upp rúllustiga og dröslaði þeim í röðina að tollinum, til að spara tíma.

Fluginu seinkar um hálftíma svo ég bíð á kaffiteríunni og les innganginn að dagbókinni sem Eva gaf mér, það fallegasta sem ég hef lesið og tárin byrja að streyma. Er strax byrjaður að sakna hennar! Hjarta mitt fullt af söknuði og þrá, en um leið líður mér eins og heppnasta manni á jarðríki. Hvað hef ég eiginlega gert til að öðlast slíka konu og skil ekki hvernig ég gat litið glaðan dag án hennar.

Fluginu seinkar aftur og ég er byrjaður að hafa enn meiri áhyggjur hvort við náum til Senegalska sendiráðsins og fá visa í tæka tíð. Það tekur okkur allavegana klukkutíma að ná þangað frá Gatwic og svo ná til baka fyrir þrjú í flug til Lissabon.

Fer að skiptiborði Iceland Express og fæ loks þær upplýsingar að afísingarbíll hefði klesst á flugvélina og flugvirkjar enn að meta hvort vélin sé flughæf.

Hvíli mig í hjólastól fyrir utan skiptiborðið og heyri miðaldra, ljóshærða konu á leið til Tenerife, afpanta flugið sitt hjá Iceland Express og fá sér miða með flugleiðum í staðinn. Segist ekki hafa efni á að kaupa sér gistingu í London og nýjan miða þaðan til Tenerife.

Við erum ekki komnir upp í vél fyrr enn hálf tíu og átta mig þar á að Eva var ekki að grínast áðan, þegar forsetafrúin treður dalmatíuhundinum sínum yfir hausinn á mér. Tökum á loft stuttu seinna og á leiðinni reynir áhöfnin að sefa hóp af eldriborgurum sem eru að missa af tengiflugi til Tenerife. 

Lendum um hálf eitt og reyni að seinka tengifluginu til Lissabon en kostnaðurinn heilt miðaverð svo við ákveðum að nota miðann til Lissabon og reyna að seinka fluginu þaðan. En sama sagan þar svo ég segi "ríðum þessu", ákveð að fara til Senegal sem ólöglegur innflytjandi. Hringi svo í ástina mína sem lýst ekkert á þetta og er hjartanlega sammála, hausinn á okkur er fullur af skít.

Á leiðinni í vélina sýni ég vegabréfið þrisvar og líð eins og glæpamanni sem er við það að nást. Kemst í vélina og átta mig á því að það verður ekki aftur snúið. Í vélinni kemur yfir mig óvænt ró, les og svef eins og ungabarn alla leiðina.

Eftir að við erum lentir bíður okkur rúta, hún keyrir okkur í tollinn þar sem við fyllum út eyðuböð og vonumst til þess að þeir viti ekki að Ísland sé ekki í Evrópusambandinu. Þeir reynast vita það og við tekur endalaust blaður og þref. En eftir um 40 mínútur og fyrstu moskíto bitin er okkur hleypt inn fyrir 200$ og þrjár sígarettur.

Fáum símanúmerið hjá feitasta tollaranum Doudou sem ætlar að hleypa okkur úr landinu án stimpils seinna. Því við getum ekki sótt um nein rekstrar- eða atvinnuleyfi án þess að hafa visa og ekki sótt um visað inni í landinu sjálfu. Planið er þá að fara seinna til Gíneu og sækja þaðan um visa til Senegal.

Þegar við komumst loks í gegn, bíða okkur gaurar sem vilja hjálpa með farangurinn og finna okkur leigubíl. Leyfum þeim það og ég hlusta á þvælu um skóla og erfiðleika, segi Ceer hafa alla peningana þar sem ég veit ekkert um hvað svona þjónusta kostar.

Það er 26 stiga hiti og klukkan er að verða þrjú um nótt þegar við fáum far með vel klesstum leigubíl með teipaðar rúður heim til Point-E og kostaði okkur 3500 cefa.

Garðshliðið að húsinu reynist læst og eftir slatta af banki, klifra ég yfir hliðið og opna innan frá fyrir Ceer. Berjum á húsið í drjúgt korter þangað til Jean Charles kemur til dyra. Viðkunnulegur frakki sem hefur leigt húsið af Ceer síðastliðna átta mánuði en talar ekki orð í ensku frekar en ég frönsku.

Þegar við vorum að taka upp úr töskunum og koma okkur fyrir segir Ceer að Jean C. hafi verið búinn að afskrifa okkur og hefði verið að njóta konu. Og því ekki þorað að koma strax til dyra. Ég spyr hann svo út í hávært gaul sem ég heyri úti við, hvort það sé brúðkaupsveisla eða álíka.

Hann segir að það sé Gamou, trúarhátið múslima og þeir lesi upphátt úr ritningunni fram á morgunn og allt yrði lokað nærsta dag. Sofna stuttu seinna út frá Kóran gauli og moskíto flugurnar bíta taktinn.


07.02.'10. AGRA

Vaknaði um sjö, fór á fætur og klæjaði um allan líkaman eftir moskíto bit, tók kalda sturtu til að slá á kláðan og kominn út um átta.

Carak átti að sækja mig kl. níu svo ég skildi eftir miða á hurðinni að ég ætlaði í morgunn göngu, reyndist óþarfi þar sem ég hitti óvart á hann við tehús, fengum okkur chai og ég svaraði spurningum heimamanna um kyn mitt og tilgang. Braut glas, keypti annað, en þurfti ekki að greiða fyrir brotnu umbúðirnar, aðeins innihaldið.

Ókum af stað yfir brúnna í átt að mótstæðum bakka Yammuna árnar gegnum svalt morgunmistrið og æfði mig í að segja "ég þarf þetta ekki" á Hindi á meðan ég horfði á vatna-buffalóana strika yfir ánna og konurnar þvo og þurrka litríkan þvott á bakkanum.

Lölluðum gegnum lítið þorp, þröngar götur fullar af grenjandi geitum, þverum en skinnhorðum kúm og smjattandi svínum. Stekk úr bílnum og kaupi kippu af bönunum og vínberjaklassa í morgunmat handa okkur Carak. 

18151_1221760825867_1284356370_30557296_2382778_n (1)

Keyrum svo inn í skóg með aldingörðum inn á milli og auðsjáanlegt að enn ríkir vetur. Við enda vegarins bendir Carak mér á göngustíg sem liggur niður að ánni þar sem ég get séð baksvip Tötsju í morgunsólinni og bíður í bílnum á meðan.

Geng fram hjá nokkrum hermönnum, heilsumst og benda þeir mér á grindverk og ég stoppa. Aðeins viðurkennt þvottafólk og auðvitað buffalóarnir mega fara niður að ánni í óttanum við hryðjuverk.

Virði baksvip Taj Mahall fyrir mér undir vökulum augum hersins, spjallaði við stráklinga sem vildu fara niður að ánni en herinn meinaði þeim.

Þeir voru ótrúlega spenntir fyrir myndatöku sem ég og gerði. Gekk svo svo til baka, var stoppaður af ungum dreng sem ólmur vildi selja mér póstkort.

Ég nota sömu rulluna, ég hafði lært fyrr um morguninn og steinhissa spyr hann hvar ég hefði lært Hindi og ég svaraði að bragði, "úti á götu" sem hann trúði ótrúlegt en satt.

Fékk svo Hindi dembuna yfir mig allan og þurfti að verjast á ömurlegri ensku og endaði með því að að kaupa blessuð kortin.

Stuttu seinna skoðaði ég, baby Taj Mahall rétt hjá, skreytta blómum og vínkerum utan á hvítum marmaranum, en blóm og vín voru víst í miklu uppáhaldi hjá mógúls frúnni sem liggur undir öllum marmaranum.

Hleraði af einum leiðsögumanninum að hrægammarnir hefðu horfið fyrir stuttu vegna einh. veiki og

18151_1221761185876_1284356370_30557305_311922_nástæðan fyrir fjölda vatnabuffalóa við ánna væri sú að heimamenn hýstu þá og mjólkuðu. Buffalóarnir fara niður að ánni að morgni og koma heim aftur að kveldi þar sem þeir skila víst þykkari og betri mjólk en venjulegar rusljórtrandi kýr.

Leit svo á Rauða Virkið og skoðaði herbergið sem mógullinn Shasha Jahan eyddi síðustu 8 árum ævinnar sem fangi sonar síns, með útsýni til Tötsju. Allt ákaflega harmrænt og rómantískt.

Í virkinu varðist Shasha valdaráni sonar síns mánuðum saman þar til hann gafs upp vegna vatnsskorts, en sonurinn lokaði fyrir vatnsinntakið. Í virkinu voru nefnilega vatnsdælur knúnar fílum.

 Brunuðum úr bænum eftir að hafa verið rændir á Pitsa Hut um eitt og stefndi í langan dag. Nærsta stopp var í Fatehpur Sikri (City of victory), Carak mældi með því að ég tæki tuk tuk (auto rickshaw) upp að hliðinu og vildi bíða á meðan. Þverhausaðist til að ganga upp eftir, gegnum gamlar rústir í stað þess prútta við  tuk tuk'ana og tók eftir gömlum úthöggnum steinum sem endað höfðu í vegfyllingu.

Eftir hálftíma grill kom ég að hliðinu og fékk tvítugan strák til að leiða mig um staðinn og söguna. Hann sagði borgina byggða milli 1571-1585, af Jalaluddin Muhammad Akbar, sem lagði undir sig norður og mið Indland eftir blóðuga baráttu en eftir á orðið afhuga blóðsúthellingum. Vildi sameina öll trúarbrögð til að tryggja frið og giftist því fjórum konum allar mistrúaðar, fyrsta múslimi, önnur kristinn, þriðja jainsk og sú fjórða hindúi.

18151_1221761625887_1284356370_30557316_4562888_n

Allar fengu þær sína höllina hver eftir eigin höfði og athygglisverðast þótti mér að sú kristna átti þá minnstu, en það var vegna þess veggir hennar voru lagði gimsteinum og gulli. Akbar vildi nefnilega ekki gera upp á milli kvennanna og fengu þær því sömu kostnaðarheimildina.

Nú eru bara holur eftir í veggjunum í stað steinana og ljótar myndir sem bretar skildu eftir í stað mynda úr skíragulli sem þeir tóku með sér.  

Leit svo grafhýsi uppáhalds fíls Akbars, en sá fíll dæmdi með augnaráðinu einu saman hvort sakborningar voru sekir eða ekki. Ef hann taldi þá seka traðkaði hann þá til bana. 

Undir kvöld komum við til Jaipour oftast kölluð Pink City, spurði Carak út í allt skreytta fólkið sem dansaði á götuni og háværa músíkina í kring, þetta var carnival stemmning.

18151_1221760865868_1284356370_30557297_6781509_n

Carak sagði þetta brúðkaupveislu og fólk ferðast langa leið til að gifta sig á þessum heilaga stað og veislan stæði í sólarhring eða meir.

Við tók skíta hótel, mun verra en það fyrra og fékk herbergi á fjórðu hæð. Ungur strákur í lobbíinu heimtaði að bera bakpokan minn upp en vanmat þyngdina svo ég tók við . Carak kvaddi mig uppá herbergi með grasi og nepölsku charasi sem var nokkurskonar uppbót fyrir hótelið.

Herbergið var rúmgott en skítug og fann ég fullt af rifum við glugga og loftkælingu sem virkaði auðvitað ekki. 

Fór stuttu seinna út og gekk í myrkrinu að stað ekki langt frá með vestrænu þema og náði mér í kíverskar rúllur, hamborgara og ís. Tók mig dálítinn tíma komast í gegnum pöntunarferlið en starfsfólkið vinsamlegt og matsveinarnir stilltu sér upp og heimtuðu mynd.

Uppá herbergi reykti ég mig gaddfreðinn, borðaði kræsingarnar og las þangað til ég sofnaði við brúðkaupst tóna um miðnætti.

Klukkan þrjú vakknaði ég, var eins og nálarpúði eftir blessaðar moskito flugurnar og lagðist í tilgangslaust fjölda morð. En alltaf komu nýjar og nýjar gegnum rifur við glugga, gafst svo endanlega upp eftir rúman tíma og sofnaði aftur. 


Dehlí 06.02.'10

18151_1221759585836_1284356370_30557266_1073141_nFöstudagur

Vaknaði við létt bank kl. sex, reif mig fljótt fram svo ég væki ekki herbergisfélaga mína, en enginn þar, skreið aftur undir svefnpoka og ullarteppi.Hugsað þar til loftkælingarinnar sem kostaði mig 100 rúpíur aukalega þó svo að áttatíu og átta manns hefðu orðið úti nóttina áður en ég kom og öll önnur herbergi víst full. Velti því líka fyrir mér hvort nokkuð yrði úr fyrirhugaðri ferð minni á vegum ferðaskrifstofunar Nexus, sem ég greiddi hundrað evrur fyrir fram.

Aftur heyrði ég bank upp úr sjö. Opna fyrir lágvöxnum en þreknum sherpa með stutt afturgreitt grámengað hár, klæddum þykkum gráum buxum , skyrta og gleraugu í stíl.

Áhyggjufullur og leiður á svip, sagðist hann átt að sækja mig kl. sjö og væri búinn að bíða fyrir utan síðan sex.

Stóð á nærbuxunum í dyrunum og svaraði fúll á móti, "I am not to be picked up until nine". Hann stóð fastur á sínum tíma, ég ætlaði að reka vitleysuna öfuga oní manninn og sótti voucherinn. Mér til svínslegrar skelfingar kom hann heim og saman við hans tíma.

Hafði asnast til að lesa á rangan dag og átti að vera sóttur kl. níu já, en það var í Jaipur daginn eftir. Bað margfaldar afsökunar og var sem betur fer búinn að pakka niður kvöldið áður. Hljóp niður og bíttaði morgunmatnum í mötuneytinu, dahl (rautt og stundum grænt karrí bauna sull með pappadams sem er nokkurskonar laufabrauð) fyrir tvo banana.

Kvaddi öryggisvörðinn og auto ricksaw bílstjórana sem ég hafði deilt ófáum sígarrettum með í hlaðinu undanfarna daga og sherpinn tók bakpokan og skellti í skottið á hvítum Ambassador.

Á leiðinni sagðist hann heita Carak og flust með fjölskyldunni frá Nepal til Dehli fyrir 27 árum í leit að

18151_1221759665838_1284356370_30557268_3974392_n

 betra lífi og ætti 4 börn enn heima. Spurði mig svo hvað ég héldi hann væri gamall, giskaði á að hann væri 45, nei svaraði hann hróðugur og sagðist vera 58 ára og aldrei fengið matareitrun né orðið misdægurt. Dró svo upp flösku af Old Monk rommi upp úr gírskiptingunni og bauð með nepölsku grasi.

Ótrúlegt en satt þáði ég bara tappa af rommi (fyrir meltinguna) og bauð honum whiskey sem hann þáði óspart, kanski ekki viturlegt þar sem hann er bílstjórinn og allt það,en umferðin meikar ekki sens hvort eð er.

Það tekur tíma að aðlagast nýrri aksturs menningu og hjarta mitt tekur kipp í hvert sinn sem Carak tekur fram úr og mótorhjól ekki bara í eitt, koma úr gagnstæðri átt.Carak róar mig niður og segir hjólin minni og færi sig bara til hliðar, en missi andlitið þegar fram úr okkur taka hjón á mótorhjóli með fullorðna geit á milli sín.Í brúðkaupsferðalagi með heimamundinn á milli sín hugsaði ég.

Eftir um tveggja og hálfs tíma akstur stoppar Carak hjá skúra þyrpingu og fer út að greiða úr tollaveseni og allt um kring er múgur manns með alskyns örkuml til sölu, apa í bandi og skítug börnin dansa á milli heljarstakka.

Bíð í miðri hringiðuni og alls ekki sama, fólkið streymir að og geri þau mistök að svara miðaldra manni með skalla sem reynir að selja mér lítið ferðaskákborð úr við, á einmitt nákvæmlega eins og tel mig geta losnað við hann á þeim rökum.Manngarmurinn færist í enn meiri ham við þau og ég fæ mig full saddan tíu mínútum seinna og barði í mælaborðið, hrinnti upp hurðinni og gekk svo hvasst að hann lét sig hverfa.

Er óvanur þessháttar og steig tinandi aftur í bílinn og stuttu seinna er kallinn leystur af 9 ára dreng sem biður um pening en legg ekki í það, því ég tel víst að yfir mig gangi holdskefla bettlara, biður strákurinn þá um penna.Ég held að hann sé að lækka betlið niður í klink, "penny" heyrðist ég hann segja en misskilningnum er svo eytt af föður hans sem kemur til hjálpar og segir "pen for school". Fer þá í töskuna í aftursætinu og næ í bláan bic penna og rétti honum.Hann tekur við vonsvikinn á svip og auðsjáanlegt að hann vildi betri pennann.

Carak kemur loks og áfram heldur ferðin, eftir um hálftíma, 40 mínútur stoppar Carak við veitingastað-mynjagripa búð og augljóslega túristagildra. Á bílaplaninu er fimmtugur feitur indverji með apa í bandi og vill fá að taka mynd af mér leika við apann.Vorkenni apanum og læt mig hafa það að móðga karllinn og sný mér að tveim 12 ára drengjum sem spila á snáka flautur, bólngar upp í annan endann, fyrir tvær gular kóbraslöngur og tek mynd. Strákarnir bjóða mér að klappa á slöngunum sem ég fellst á og Carak segir mér vera varkár.

Annar drengurinn tekur mynd og rukkar mig að sjálfsögðu um 500 rúpíur en þeir eru hressir og gaf ég þeim 100 rupiur og andlitin þeirra skinu eins og tunglin þjú í drauminum, nóttina áður.

Klára sígarettuna og fer inn í morgunmat, sem reynist vera fok dýr á indv. mælikvarða. Þjónninn spyr mig hvað mér lítist á og segi ég hug minn og geng út frá vonsviknu andliti. Lít á dótið í búiðinni og sölumennirnir sýna mér styttu af manni negglandi konu í gegn með röðlinum á sér og segja svo að tippi á Hindi sé "lola" og "lundha". Nota klóstið og fer út án þess að kaupa neitt.

Skoða garðinn, tek nokkrar myndir, teygi úr mér og geri armbeygjur fyrir framan maurabú. Ætla aftur af stað en Carak ekki sýnilegur, örugglega að éta staffamat inni hugsa ég. Fer að bílnum og hvíli mig á veggnum umhverfis bílastæðið og horfi yfir endalausa repjuakrana.

Annar snáka drengjanna bíður mér gegnum táknmál gras og þykist ég ekki skilja hann með því að benda á sígarettuna sem ég var að reykja og hrista hausinn. Sé svo eftir því en nenni ekki að fara að prútta við þá og fúli apa maðurinn líka ekki langt frá. Carak kemur loks og spyr hvernig maturinn hafi verið. Horfi á hann vonsvikinn og segi "expensive tourist trapp" og áfram heldur ferðin.

Gat ekki beðið eftir að sjá Taj Mahal sem byggð var af mógúlnum Shah Jehan fyrir konu sína Arjumand Bano Begum sem var fræg undir nafninu Mumtaz Mahal (Hallardjásnið). Risastór minnisvarði um ódauðlega ást.

Og ánægður með að hafa loks tekist að hlakka til og vera spenntur en heyrði utan af mér fyrir löngu að Taj M. væri ofmetin. Þær grunsemdir hurfu svo með nokkrum góðum lýsingu bæði af ferðamönnum og innfæddum í Dehli sem og í ferðasögu Sigurðar A. Magnússonar, Við elda indlands.

"Sé mikil list í því fólgin að skapa fullkomna blekkingu, þá er Taj Mahal óviðjafnanlegt listaverk, því maður trúir tæplega að byggingin sé jarðbundin - hún flýtur í loftinu einsog hallirnar sem við sáum fyrir okkur í bernsku undir lestri töfrandi ævintýra. Ljósmyndir geta ekki gefið rétta hugmynd um þetta furðuverk, því það er í lífrænum tengslum við umhverfið, blómríka garðana umlukta múrum, fljótið helga, hlið glæsilega hlið andspænis byggingunni......Taj Mahal er í rauninni minnisvarði gullaldar mógulskeiðsins, hinzta tilraun hinnar miklu ættar til að gera nafn sitt eilíft á jörðinni - tilraun sem heppnaðist."

Sherpinn hressi fékk mig svo til að framlengja ferðina úr tveimur dögum í þrjá, gegn 36 evru þóknun með gistingu í Agra.

Þar vísaði bílstjórinn mér til enn einnar túristaræningja búllurnar, var kurteis, settist niður og leit á matseðilinn. Allt, allt of dýrt og aðeins eitt borð í gangi. Sem þýðir bara eitt, dýr matareitrun.Fór á stúfana eftir góðum mat, bílstjórinn elti mig með sektarmálað andlitið og spurði hvort mér hefði ekki litist á matinn. Sagði nei.Hann spurði hvað ég æti og ég svaraði að bragði "I can eat every thing".

Sagðist hitta á hann eftir hálf tíma á sama stað og gekk burt.

18151_1221760225852_1284356370_30557282_6338886_n

 Nú sit ég á littlum stað gerðan úr leirveggjum og bárujárni, með 4 borð og hefur ekki undan við að elda ofaní heimamenn er þetta er skrifað. Ég bíð eftir borði eða stól. 12 ára drengur sem vinnur á staðnum stendur og starir á mig, ég sé hann með gagnauganu. Leyfi honum að stara nægju sína og rek svo augun á hann, við horfumst í augu, svona 10-15 sek, hann fer.

Skrítið hvað hann horfði lengi og augun lýstu forvitni, öfund og sorg.Staðurinn heitir Phrary Mundi. Fæ dahl og capati, hef ekki undan að hafna ábót og enda svo á að þiggja bolla af chai. Strákurinn starandi kom aftur að mér með útrétta hönd og vertinn skammaðist og ýtti drengnum aftur að verki.

Skrifaði nafn mitt á miða og rétti stráknum, stundu seinna kom hann aftur og lét tætlurnar af miðanum rigna niður við fætur mínar. Þegar kom að því að borga kom í ljós að öll herlegheitin sem gerðu næstum út af við mig kostuðu 85 rúpíur * 2,78 = ca 250 kall. Tippsaði 15 rúpíum, tók í hendina á vertinum og skildi í gleði en þó með augun og miðan í hausnum.

Gekk til Caraks og skildi töskuna eftir í bílnum og fór í röðina að Taj Mahal. Fyrst fer ég í ranga röð,mun lengri en hina, er svo bent á að hún sé aðeins fyrir Indv. og er vísað í túrista röðina 30 sinnum dýrari og styttri, fæ miða á 500 rupíur.

18151_1221760545860_1284356370_30557289_1245476_n

Bíð svo í langri röð að leitar hliðinu í sól og 40 stiga hita.

Ungur olíugreiddur Indv. í merkjavöru frá toppi til táar og D&G gleraugu stendur fyrir aftan mig með vini sínum. Smjattar viðbjóðslega hátt rétt við eyrað á mér og fór í taugarnar á mér. Þegar við komum að leitarhliðinu, tvískiptu með dúk fyrir hvort kynið, tekur hann upp á því að nudda sér upp við mig í tilraun til að komast fram fyrir. Ég leyfi honum að snigglast utan við mig í þrengslunum og tekur hann þá ekki upp á því að klifra upp á grindverkið með dúknum til að sjá verðina leita á konunum. Þetta er algerlega hömlulaust og ég fæ enn meiri viðbjóð á manninum.

Fór í gegnum leit, náði að smygla einni sígarettu,kveikjara og vatnsflösku í littla bakpokanum, þó svo að hann hefði verið opnaður og skoðaður. Vildi eiga sígarettu til að reykja á bakaleiðinni og vatn er nauðsin.

Ég stoppaði og virti fyrir mér hliðið í hálftíma áður en ég fór í garðinn, tíglamynstrin og davíðstjörnunar í rauðum sandsteininum. Stórt og þungt, líklega stærsta kirkjugarðshlið veraldar.

Mér liggur ekkert á og bíð eftir kvöldsólinni. Geng inn garðinn og stend þar sem Óli og Dorrit mynduðu sig. Horfi yfir langan garð með gosbunnunum og skýjahöllina sem ég hafði ímyndað mér í 1001 nótt í bakgrunni.

Sest niður og stari á turnana fjóra umhverfis Tötsju og ímynda mér kyndilhúsin fjögur full af eldi og glæstri tíð, lýsandi upp höllina með leikandi logum sem hún væri fljótandi. Hugsa til ástinnar og óska mig hennar ef hún bara vildi. Ástin er ekki sjálfsögð og þakka fyrir að hafa ekki viljað fara hingað með Lundon og er nú einn með mínum þönkum.

Rifja upp okkar síðustu stund fyrir utan bakaríið á kaldri janúar nóttu, lítill koss og svo margt ósagt. Af hverju gengur þetta svona illa? Skortur á trausti, ég verð að læra að treysta henni fyrir hjarta mínu sama hvað ég er hræddur. Óttast að tapa henni ef við eyðum fjarlægðinni en veit að ég mun missa hana með þessu áframhaldi ef hún er ekki horfin nú þegar. Ætla ekki að vera hræddur þegar ég kem heim.

Friðarstundin er svo eyðilögð af litlum manni nepölskum útlits sem sest og byrjar að tala við mig á enn minni ensku, hjala vinsamlega við hann í nokkrar mínútur og geri mig tilbúinn að fara af til Tötsju.

Eltir hann mig og vill vera leiðsögumaður, ég þvertek fyrir, vill þá fá að halda á vatnsflöku minni en leyfi ekki. Fæ alveg nóg og finn til blygðunar þegar hann stuggar fólki til hliðar sem kemur á móti mér og endurtek skýrt fyrir honum "go away" sem hrekkur bara af honum eins og vatn af gæs. Ég sem var búinn að hlakka svo til þessara stundar, klikkast og gríp um öxlina á manninum og öskra "drullaðu þér í burtu", hann fer um leið sem og allt fólkið í kring. Stóð ekki á sama þegar ég sá fólkið og börnin forðast mig eins og síldartorfa.

Róaðist svo niður við að taka myndir af hegra við bakka hjá gosbrunninum.

18151_1221759945845_1284356370_30557275_1116182_n

Skildi skóna eftir hjá gömlum manni við sökkulinn á Tötju og fór uppí höllina svífandi. Gekk hringinn í kring og tók myndir af gríðarstórum vitunum í kringum höllina og Jamuna ánna. Fór svo í röð við innganginn sem var svolítið löng og fyrir aftan mig voru miðaldra bretar að fá útrás fyrir eigin stéttarvitund og indverskur leiðsögumaður þeirra í þunnri vaff máls peysu og skirtu undir, enn verri.

Algert pakk hugsaði ég og hélt uppi lámarks samræðum, en hleraði þó það sem leiðsögumaðurinn hafði að segja um grafhýsið. Tatsja er fallegri að utan en innan, þó er alger nauðsin að líta inn á hjónin og litríkan blómaskurðin í marmarannum.

Fór út og tók annan hring, því sólin var búin að lækka sig og í hvelfingar bogunum mynduðust skuggar sem minntu á tvö mannsandlit.Hugsaði með mér að að skugginn væri prófíll andlits Mumtaz Mahal og manns hennar Shah Jehan sem kyssast inn í nýjar aldir.

Gekk rólega inn í Agra og hitti Carak. Bókaði mig inn á hótelið. Hola með stórum gömlum hengilás fyrir hurðinni sem vísaði út á aðalgötuna. Þar var þó sjónvarp (43 stöðvar) og Carak gaf mér gras til að lífga uppá vistana. Gerði það littla í jóga sem ég kunni í næstum 2 tíma.

Fór svo út í sjoppu og keypti kók og snakk, kósí kvöld fullt af indverskri menningu + stríð við moskito her. 


Um bloggið

Birgir Þór Júlíusson

Höfundur

Birgir Þór Júlíusson
Birgir Þór Júlíusson
Þrítugt barn sem skilur ekki upp né niður í lífinu og deilir reynslu sinni með ykkur á þessu bloggi.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • 246
  • 181
  • 18151 1221760225852 1284356370 30557282 6338886 n
  • 18151 1221759945845 1284356370 30557275 1116182 n
  • 18151 1221760545860 1284356370 30557289 1245476 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband