Gamou

181

Fer út um leið og ég vakna kl. ellefu og leyfi sólinni að skola burt flugþreytu gærdagsins, meðan ég les reifarann Nemesis sem pabbi gaf mér í ferðagjöf.

Ceer vaknar loks, fer inn og tek þar kalda sturtu og strax byrjaður að sakna heita vatnsins heima.

Við Ceer förum út og heilsum upp á ca. 35 ára konu sem selur ávexti og ristaðar jarðhnetur með börnum sínum á gangstétt, móti húsinu okkar. Kveðjum og finnum okkur hraðbanka.

Á leiðinni segir hann þau með lykil að húsinu og ótrúlega heiðarleg, hafi auga með húsinu þegar við erum ekki heima og yngri systir konunar sjái um þrif á húsinu fyrir 50$ á mánuði.

Göngum á miðri söndugri götu og engin umferð. Ceer segir mér það sé Gamou og flestir farnir til pílagríms bæjarins Tivaouane að halda upp á afmæli Mohammeds. Það er vetur og ekki búið að rigna síðan í ágúst, svo öll borgin er rykug og skrælnuð.

Tek út 5000 cefa, kaupi svo croissant og snúða á Les Ambassaders þar á móti. Bakaríið er útatað rauðum hjörtum, blöðrum og gerviblómum í stíl til heiðurs st. Valintínusi og myndi sóma sér vel í Rauða hverfinu í Amsterdam.

Bjóðum svo Jean Charels upp á morgunmat og þeir ræða saman á frönsku, ég nota tímann og skrifa dagbók á meðan.

Eftir á, vill Ceer ganga um hverfið og heilsa fólkinu sínu og bíður mér með. Komum við í sjoppu á þarnæstu götu og fáum okkur caffé touba, rótsterkt og dísætt.

Bönkum svo upp á hús gamallar frænku hans þar á bak við. Enginn virðist vera heima en tvítug lítil stúlka kemur loks til dyra og segir hana ný flutta til Gíneu af ótta við að deyja fjarri ástvinum sínum. Sjálf er stelpan frá Gíneu en fær að búa frítt í húsinu meðan hún sækir sér menntunar í förðunarskóla þar rétt hjá.

Kveðjum og höldum áfram. Á leiðinni segir Ceer gömlu frænkuna hafa alið sig þar upp frá sex ára aldri en foreldrar hans flúðu frá Gíneu 1958, komu honum fyrir hjá henni og settust sjálf að í Sierra Leon.

Hittum stuttu seinna nokkra menn drekka te og passa ísskápa undir tré fyrir utan enn aðra sjoppuna, eins og þeir hefðu alltaf setið þarna og heilsuðumst við með handabandi.

Ceer sagði einn þeirra gera við bilaða ísskápa og seldi einstaka skáp meðan hann dólaði sér með félögunum  sem væru flestir yngri bræður æskuvina sinna, en þeir eru næstum allir fluttir vestur um haf.

Drekk blýsterkt te með þeim og hlusta á þá tala waloof þangað til ég þreytist og held áfram með reifarann. Og eftir að hafa tekið í höndina á öðrum hvorum manni sem gekk þarna niður götuna í tvo tíma, höldum við heim.

Tökum því rólega og eftir stutta stund býður J.C upp á rósa vín og þeir blaðra frönsku út í eitt.

246

Jean Charels hefur búið hér í átta mánuði, ætlaði að opna leigubílastöð í Dakar en fann ekki neinn sem hann gat treyst og eyddi því tímanum í að eltast við kvenfólk. Kemur með þá hugmynd að brjóta ekki bara niður veggina í húsinu heldur skera gat 6*2,5m að auki og ná þannig birtu inn í dimmt húsið og fá um leið betri tengingu við garðinn.

Ég er sammála, þetta er ekki bara sniðugt heldur nauðsyn. Bara að húsið þoli framkvæmdina hugsa ég og ráðlegg Ceer að athuga hvort það sé komin reynsla á þetta í samskonar húsum og ef ekki, ráðfæra sig við arkitekt. 

Hann segir það óþarfa og ætli að hefjast handa við niðurbrotið á mánudaginn eftir helgi. Jæja, þetta er hans hús og ég ekki enn búinn að ákveða hvort ég taki þátt í þessu.

Þeir halda áfram að tala um staðinn á frönsku svo ég geri teygjuæfingar í garðinum á meðan. Hugsa þar til ástarinnar minnar heima og vil heyra í henni hljóðið. En get það ekki strax, til þess er ég of ringlaður í hausnum og hálf dapur. Hún hefur nægar áhyggjur af mér samt.

J.C. kvaddi okkur um fimm og ók á hjólinu sínu til einnar ástkonunnar. Stuttu seinna tökum við Ceer leigubíl niðrí bæ og göngum þaðan á veitingastað við ströndina. Fínn staður, góð þjónusta og maturinn næstum jafn dýr og heima, nema meira úrval af fiski. 

Tek eftir að flestir gestanna eru sósuglaðir Frakkar, nokkrir kanar og heimamenn. Hafði haft áhyggjur af að ekki væri nóg af vestrænt þenkjandi fólki í Dakar sem ætti pening og létti stórum.

Pantaði karfa í bland við rækjur en Ceer fékk sér makrílinn og á meðan við biðum eftir matnum kveikti ég í sígarettu þó ég vissi ekki reglurnar og fékk öskubakka um hæl.

Eftir matinn göngum við uppí bæ og sé þar risastórt víravirki sem minnti á jólatré. Grínast við Ceer og hann segir það satt og sett upp fyrir kristna Senegala. Spyr hvort það sé ekki fallegra og ódýrara að fá alvöru grenitré frá Osló eins og við heima og það frítt. Hann segir stjórnkerfið í molum og forsetann sem býr rétt hjá, gamlann og fúinn, með fullt af fimmtugu já liði með sér.

Klukkan er rúmlega ellefu og fáir á ferli, göngum upp götu sem Ceer segir hafa verið þá fallegustu í Dakar og kölluð littla París vegna krúttlega frönsku húsanna sem hana prýddu.

Nú hafa þau flest vikið fyrir kassalaga og klámlega ljótum verslunarhúsum sem sjást varla fyrir kofaskriflum úr bárujárni og allskyns öðru rusli sem tekið hafa yfir (gang)stéttirnar.

Ceer segir forsetann kosinn af fáfróðu fólki sem byggt hefur þessi skýli undir götusöluna. Svo þegar hann ætlaði að stugga við kofunum fyrir tveim árum ,varð allt vitlaust og göturnar fylltust af ofbeldi og brennandi dekkjum.

Klikkti svo út að sami forseti hefði boðið sig fram í öllum forsetakostningum síðan lýðræði komst á. Þegar hann loks náði kjöri vildi hann ekki fara frá og kaupir sér ódýr atkvæði. Segist vera 91 árs sem Ceer segir lygi, hann er í raun 105 ára. Allt fólkið í kringum hann gegnumrotnir þjófar og því fari ekki króna í vegagerð og borgin ekki sú sama og algerlega komin í skítinn.

Tökum leigubíl heim, horfum þar á Prison Break og sofnum. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Birgir Þór Júlíusson

Höfundur

Birgir Þór Júlíusson
Birgir Þór Júlíusson
Þrítugt barn sem skilur ekki upp né niður í lífinu og deilir reynslu sinni með ykkur á þessu bloggi.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 246
  • 181
  • 18151 1221760225852 1284356370 30557282 6338886 n
  • 18151 1221759945845 1284356370 30557275 1116182 n
  • 18151 1221760545860 1284356370 30557289 1245476 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband